top of page

Greining á fræðsluþörf í ferðaþjónustu

og matvælaframleiðslu á Vesturlandi

Við þarfagreininguna voru nýtt fyrirliggjandi gögn frá aðilum ferðaþjónustunnar og ákveðið var að styðjast við niðurstöður úr könnun Stjórnstöðvar ferðamála um mannafla- og fræðsluþörf í greininni, sem kom út í júní 2016.  Einnig voru notuð óformleg samtöl við aðila í ferðaþjónustu og matvælaiðnaði. 

Skipulögð var vinnustofa þann 30. apríl 2016 með aðilum úr matvælaframleiðslu á Vesturlandi og fræðsluaðilum. Boð um þátttöku í vinnustofunni var sent á um það bil 80 fyrirtæki og einstaklinga í matvælaframleiðslu á Vesturlandi, auk þess sem sömu aðilar fengu tækifæri til að koma hugmyndum og skoðunum á framfæri í gegnum netkönnun.   Í vinnustofunni voru settar fram hugmyndir um forgangsröðun verkefna og hugmyndir að aukinni samvinnu og menntun í matvælaframleiðslu á Vesturlandi. 

Þarfagreining verkefnisins sýndi fram á þörf fyrir stutt, hnitmiðuð og praktísk námskeið sem ekki krefjast þess að þátttakendur fari í lengri tíma frá sínum vinnustað. Blanda af stað- og fjarnámi var nefnd sem góður kostur.

Þörf er fyrir aukna fræðslu og þjálfun almennt í þjónustu, samskiptum, gestrisni og gæðum. 

Starfsþjálfun á vinnustað er æskilegur kostur. 

Einnig er þörf fyrir leiðsögunám og sérhæft leiðsögunám. 

Styðja þarf við frumkvöðla í heimavinnslu og smærri framleiðslu og fram kom hugmynd um námskeiðaröð sem styður við þróun vöru frá hugmynd til afurðar.

Það skal tekið fram að strax í upphafi verkefnisins ákvað verkefnisstjórnin að leggja áherslu á þarfir smærri matvælaframleiðenda og heimaframleiðslu á Vesturlandi. Hins vegar stendur stærri framleiðslufyrirtækjum til boða að nýta sér þjónustu fræðsluaðila sem bjóða upp á sérsniðið nám eftir þörfum.

bottom of page